Ég heiti Karólína og er höfundur bókarinnar.

Ég hef alltaf haft gaman að þjóðsögum, goðafræði og ævintýrum. Bækurnar sem ég les eru oftar en ekki tengdar einhverju yfirnáttúrulegu, tímaflakki eða að minnsta kosti í öðrum heimi eða fjarlægum tíma.

Ég hef alltaf verið með mikið ímyndunarafl og mikla þörf fyrir að skapa en mig hefur aldrei dreymt um að skrifa bók þar sem ég er lesblind og ég var alveg viss um að það þýddi að ég gæti ekki skrifað.

Ég hef bakgrunn í leiklist, kvikmyndagerð og myndlist. Ég er með B.A. gráðu í fornleifafræði sem ég lærði vegna ástríðu minnar á sögu og mannfræði, en þar lærði ég að vera ekki hrædd við að skrifa.

Fyrir röð tilviljana tók ég upp á að semja þessa sögu og að skrifa hana niður. Ég uppgötvaði að það var ekki aðeins gerlegt heldur var það einnig virkilega skemmtilegt og sagan breyttist í heilan heim. Bókin breyttist úr því að vera sjálfstæð bók í það að vera fyrsta bók í bókaseríu, því bók númer tvö er óðfluga að verða til í höfðinu á mér.

Íslenska huldufólkið hefur mér oft verið hugleikið. Ég hef lesið þjóðsögur um álfa og huldufólk og túlkanir annarra á þeim.

Ég er undir áhrifum þjóðsagna en hef hér búið til marga álfa kynstofna ásamt sögu þeirra og menningu. Aðrar þjóðsagnakenndar verur koma við sögu og einnig einhverjar sem eru uppspunni frá rótum.

Í þessari bók fær íslenska náttúran að njóta sín og þá sérstaklega íslenska veðrið. Markmið bókarinnar er að endurvekja íslenska huldufólkið og skapa heim sem fólk getur gleymt sér í.

Heim þar sem allt er mögulegt. Hér hef ég fundið leið til að fá útrás fyrir sköpunargleði mína og ég get ekki beðið eftir að leyfa fleirum að koma með í ævintýri í Hrauney.